Ekkert öðruvísi þegar Lagerbäck var með liðið

Óskar Guðbrandsson og Ómar Smárason ræða málin á blaðamannafundi karlalandsliðsins …
Óskar Guðbrandsson og Ómar Smárason ræða málin á blaðamannafundi karlalandsliðsins í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur verið þannig eftir landsliðsverkefni að KSÍ býður leikmönnum upp á einn til tvo bjóra með kvöldmatnum,“ sagði Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Knattspyrnusambandið hefur fengið á sig gagnrýni í dag vegna þessa en Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í gær eftir að stjórn KSÍ ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans.

„Sumir fá sér bjór og aðrir ekki. Svo fara flestir upp á herbergi að sofa og þannig hefur það verið í gegnum tíðina. Þetta var ekkert öðruvísi þegar Lars Lagerbäck var með liðið,“ sagði Ómar.

Lars Lagerbäck stýrði íslenska karlalandsliðinu frá 2011 til ársins 2016.
Lars Lagerbäck stýrði íslenska karlalandsliðinu frá 2011 til ársins 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ósanngjörn umræða

Hefur Knattspyrnusambandið skoðað að afnema þessa hefð?

„Ég veit ekki til þess að það hafi verið talað um það að banna þetta eða taka eitthvað fyrir þetta. Þetta er fullorðið fólk sem er fært um að bera ábyrgð á sjálfu sér.

Vissulega er fólk undir lögaldri í þessum hópum, sérstaklega kvennamegin, og það er passað sérstaklega upp á það að þessir leikmenn séu ekki að neyta áfengis.

Svo er líka fullt af leikmönnum í þessum liðum sem smakka ekki áfengi og hafa aldrei gert.“

Ómar er ekki sammála því hvernig fjölmiðlar hafa nálgast umræðuefnið í dag.

„Fréttaflutningurinn í dag hefur verið á þá vegu að það sé Knattspyrnusambandinu að kenna þegar einhver fer yfir strikið. Það finnst mér ósanngjarnt því hver og einn ber ábyrgð á eigin hegðun,“ bætti Ómar við í samtali við mbl.is.

mbl.is