Arnar Þór var hluti af þessari ákvörðun

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson eiga sér mikla …
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson eiga sér mikla sögu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn KSÍ ráðfærði sig við Arnar Þór Viðarsson, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, áður en hún ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi fyrrverandi aðstoðarlandsliðsþjálfarans Eiðs Smára Guðjohnsen.

Þetta staðfesti Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Arnar Þór baðst undan viðtali þegar mbl.is hafði samband við hann í dag en hann og Eiður Smári tóku við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í desember á síðasta ári.

„Arnar Þór var hluti af þessari ákvörðun,“ sagði Ómar Smárason í samtali við mbl.is.

„Hann var sammála þessar ákvörðun þegar uppi var staðið en auðvitað hefur þetta verið erfitt fyrir hann. Hann verður hins vegar að horfa fram á veginn.

Þeir eiga sér sögu, hjá U21-árs landsliðinu og svo karlalandsliðinu. Þeir voru báðir leikmenn landsliðsins og svo eru þeir miklir og góðir vinir líka.

Hann vildi hafa Eið með sér þegar hann tekur við A-liðinu en svona er staðan og núna þarf Arnar að skoða aðra möguleika,“ sagði Ómar.

Arnar lagði mikla áherslu á að Eiður Smári yrði aðstoðarþjálfari landsliðsins þegar hann tók við í desember á síðasta ári.

„Það er eðlilegast að þjálfari hafi mest um það að segja hver aðstoðarþjálfarinn verður og Arnar mun  að öllum líkindum ráða för í þeirri ráðningu,“ bætti Ómar við í samtali mbl.is.

mbl.is