Akureyringar kræktu í bikarmeistara

Tiffany McCarty í leik með Breiðabliki í Meistaradeildinni í október.
Tiffany McCarty í leik með Breiðabliki í Meistaradeildinni í október. mbl.is/Unnur Karen

Knattspyrnukonan Tiffany McCarthy er gengin til liðs við Þór/KA á Akureyri. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.

McCarthy, sem er 31 árs gömul, kemur til félagsins frá Breiðabliki þar sem hún lék á síðustu leiktíð og varð meðal annars bikarmeistari með liðinu, ásamt því að leika í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. 

Framherjinn skoraði átta mörk í sautján leikjum með Breiðabliki í efstu deild á síðustu leiktíð en alls á hún að baki 33 leiki í efstu deild með Selfossi og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 17 mörk.

„Tiffany er reyndur framherji sem félagið bindur miklar vonir við á komandi tímabili,“ segir í tilkynningu Akureyringa.

„Undanfarið hefur sárlega vantað fleiri mörk til að skila liðinu fleiri stigum og ofar í töfluna og tilkoma Tiffany ætti klárlega að bæta úr því,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is