Ætlar að hætta í stjórn KSÍ

Ingi Sigurðsson .
Ingi Sigurðsson .

Ingi Sigurðsson, fyrrverandi knattspyrnumaður úr ÍBV og síðar m.a. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ætlar ekki að gefa kost á sér áfram í stjórn Knattspyrnusambands Íslands þar sem hann hefur setið undanfarin fjögur ár.

Ingi segir í yfirlýsingu að hann sé ekki að skilja við knattspyrnuhreyfinguna með þessari ákvörðun sinni en það sé atburðarás síðasta sumars í kringum stjórn KSÍ og framhald af henni sem hafi leitt til þess að hann hafi ákveðið að draga sig í hlé frá stjórnarstörfum.

Yfirlýsing Inga er svohljóðandi:

Síðastliðin 4 ár eða frá því í febrúar 2018, hefur undirritaður setið í stjórn KSÍ. Á þeim tíma hef ég setið í mannvirkjanefnd, dómaranefnd og fjárhags- og endurskoðunarnefnd sambandsins auk tveggja starfshópa á vegum sambandsins. Þessum störfum hef ég sinnt af áhuga og alúð og leitast við að leggja mig fram fyrir hreyfinguna í heild sinni.

Ég hef hins vegar, þrátt fyrir brennandi áhuga á málefnum knattspyrnuhreyfingarinnar, ákveðið að óska ekki eftir áframhaldandi stjórnarsetu á komandi ársþingi knattspyrnusambandsins þann 26. febrúar nk.

Tal um að ég sé að segja skilið við hreyfinguna með þessari ákvörðun minni er engan veginn rétt, og slíku tali vísa ég til föðurhúsanna.

Ástæða ákvörðunar minnar er sú atburðarrás sem varð í lok sumars og leiddi til þess að stjórn KSÍ sagði af sér. Í aðdraganda þess komu fram aðilar innan hreyfingarinnar sem höfðu mjög hátt, kölluðu eftir ýmsu og fullyrtu margt án þess að kynna sér málin.

Fyrir nokkru var birt skýrsla úttektarnefndar ÍSÍ þar sem m.a. er farið yfir atburðarásina sem leiddi til afsagnar formanns og síðan stjórnar KSÍ. Hvorki hafa komið viðbrögð við skýrslunni frá þeim aðilum sem hæst höfðu né öðrum innan hreyfingarinnar og við það er ég verulega ósáttur.

Framundan er ársþing knattspyrnusambandsins þar sem er mikilvægt að ræða þessi mál.

Með knattspyrnukveðju, Ingi Sigurðsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert