Vanda áfram formaður KSÍ

Vanda Sigurgeirsdóttir tekur formannsslaginn við Sævar Pétursson.
Vanda Sigurgeirsdóttir tekur formannsslaginn við Sævar Pétursson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir verður áfram formaður KSÍ eftir yfirburðarsigur á Sævari Péturssyni á ársþingi KSÍ í Ólafssal á Ásvöllum í dag.

Vanda hlaut 105 atkvæði gegn 44 atkvæðum Sævars. Vanda gat því miður ekki verið á staðnum vegna Covid-smits en flutti kosningaræðu sína rafrænt.

Ívar Ingimarsson fékk flest atkvæði allra sem buðu sig fram til stjórnar KSÍ eða 137 talsins. Hann ásamt Sigfúsi Kárasyni, Pálma Haraldssyni og Borghildi Sigurðardóttur hlutu kosningu til næstu tveggja ára. Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Torfi Rafn Halldórsson og Unnar Stefán Sigurðsson hlutu kosningu til eins árs.

Breytingatillögur samþykktar

Nokkrar breytingatillögur voru samþykktar á þinginu. Fyrirkomulag Bestu deildar karla og kvenna mun breytast en eftir tvöföldu umferðina verður deildunum skipt í tvo riðla sem leika auka umferð innbyrðis.

Þá verður tekið upp umspil í 1. deild karla en áfram verður það þannig að efsta liðið fer beint upp um deild. Breytingin er sú að liðin í 2.-5. sæti spila undanúrslit heima og að heiman og úrslitaleik um hitt sætið í efstu deild að ári.

Karlamegin verður deildum fjölgað úr fimm í sjö. Bætt verður við fimmtu deild og hálfgerðri utandeild sem verður þó samt sem áður hluti af kerfinu. Lið munu geta fallið niður í þá deild og unnið sig upp úr henni. 

KSÍ mun svo setja á stokk bikarkeppni neðri deilda. Þátt­töku­rétt eiga þau lið sem leika í 2. og 3. deild, liðin tvö sem féllu úr 3. deild árið áður auk liða sem enduðu í 3. til 8. sæti 4. deild­ar árið áður.

Ársþing KSÍ opna loka
kl. 16:35 Textalýsing Þá er þinginu slitið með kveðju frá Vöndu Sigurðardóttir. Hún eins og áður kom fram gat ekki verið á staðnum vegna Covid-smits. Ég þakka fyrir samfylgnina í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert