KA í efsta sætið

Bryan Van Den Bogaert og Daníel Hafsteinsson fagna eftir að …
Bryan Van Den Bogaert og Daníel Hafsteinsson fagna eftir að Daníel kom KA yfir í leiknum í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Skagamenn gáfu allt sitt þegar KA sótti þá heim á Akranesi í dag en urðu að játa sig sigraða í 3:0 sigri norðanmanna, sem með sigrinum taka efsta sæti deildarinnar á meðan ÍA heldur 8. sætinu.  Reyndar gæti Valur tekið efsta sætið síðar í dag og Blikar, sem voru á toppnum fyrir daginn í dag, spila svo við Víkinga á morgun.

Fyrstu tíu mínúturnar var leikurinn svolítið í járnum, menn að finna sig og mótherja en samt áttu bæði lið sæmileg tækifæri til að komast í góð færi.  Heldur fór þó að halla á Skagamenn og eftir að þeim gekk ekkert að koma boltanum frá markinu og hver hornspyrnan rak aðra.

Á 13. mínútu gerðist það, eftir þvögu barst boltinn rétt út fyrir miðjan vítateig þar sem Daníel Hafsteinsson mætti, gerði sér lítið fyrir og þrumaði í gegnum alla þvöguna upp í vinstra hornið, glæsilegt mark og óverjandi.  Það þurfti meira til að slá Skagamenn út, þeir bröltu á fætur og hófu að sækja af krafti en Akureyringar voru skynsamir, bökkuðu aðeins og hófu svo sjálfir að sækja.  

Skagamenn ætluðu að byrja leikinn með látum og sóttu en fengu þá stungusendingu í bakið og Elfar Árni Aðalsteinsson stakk Aron Bjarka Jósepsson af, komst inn í miðjan vítateig og skaut laust undir Árna Snæ Ólafsson markmann ÍA, staðan 0:2.  

Gísli Laxdal Unnarsson framherji ÍA var síðan felldur inni í teig á 57. mínútu og fékk víti, sem hann tók sjálfur en Steinþór Már Auðunsson gerði sér lítið fyrir, lagðist í vinstra hornið og varði.   Á 81. mínútu innsiglaði Jakob Snær Árnason, sem hafði komið inná sem varamaður, sigur KA er hann skoraði þriðja markið af stuttu færi þegar hann fylgdi eftir slöku skoti.

Skagamenn fara til Eyja í næstu umferð á meðan KA fær Stjörnuna norður.

ÍA 0:3 KA opna loka
90. mín. Breki Þór Hermannsson (ÍA) á skot framhjá Rétt utan teigs en hátt yfir, góð tilraun.
mbl.is