ÍA áfram eftir átta marka leik á Höfn

Gísli Laxdal Unnarsson skoraði fimmta mark ÍA.
Gísli Laxdal Unnarsson skoraði fimmta mark ÍA. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍA úr úrvalsdeild er komið áfram í 4. umferð Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir ótrúlegan 5:3-útisigur á Sindra úr 3. deild á Höfn í Hornafirði í kvöld.

Abdul Bangura kom Sindra yfir á 9. mínútu en Steinar Þorsteinsson jafnaði fyrir ÍA á 40. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.

Seinni hálfleikurinn var hinn fjörugasti en Sorie Barrie kom Sindra aftur yfir á 52. mínútu. ÍA jafnaði með sjálfsmarki á 62. mínútu og Kaj Leo Í Bartalstovu kom Skagamönnum yfir á 67. mínútu, áður en Guðmundur Tyrfingsson bætti við fjórða marki ÍA á 79. mínútu.

Ivan Eres kom Sindra aftur inn í leikinn með marki á 81. mínútu en Gísli Laxdal Unnarsson átti lokaorðið á 86. mínútu.

Þá er Ægir kominn áfram eftir 3:1-útisigur á Hetti/Hugin á Fellavelli á Egilsstöðum. Rafael Victor kom Austfirðingum yfir á 8. mínútu en Ágúst Karel Magnússon, Stefan Dabetic og Bjarki Rúnar Jónínuson svöruðu fyrir Ægi og þar við sat.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert