Þeir fá algjört heppnismark

Haraldur Björnsson með gott tak á boltanum í leiknum í …
Haraldur Björnsson með gott tak á boltanum í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég er aldrei sáttur við jafntefli og hvað þá tap, en nei ég er ekki sáttur við þetta,“ sagði Haraldur Björnsson, markvörður og fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli við FH á útivelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Leikurinn var mjög rólegur í fyrri hálfleik en lifnaði heldur betur við í seinni hálfleik.

„Þetta var eins og ég bjóst við. Við höfum ekki unnið í tveimur leikjum og þeirra gengi hefur verið eins og það hefur verið. Bæði lið fóru varkár inn og lítið sem gerðist í fyrri hálfleik. Liðin reyndu svo að fikra sig áfram í seinni og þeir fá algjört heppnismark upp úr föstu leikatriði sem við áttum að vera með coverað en svo sýna strákarnir mikinn karakter og við hefðum hæglega getað stolið þessu í lokin,“ sagði hann.

Bæði lið fengu góð færi í uppbótartíma til að skora sigurmarkið. „Það hefur gerst hjá okkur áður. Við ætlum að gera allt til að sækja þrjá punkta en fáum svo sóknir á okkur líka. Danni Lax náði að hlaupa hann uppi og hægja á honum. Skotið var gott hjá honum og það munaði litlu.“

Stjarnan hefur nú gert þrjú jafntefli í röð eftir þrjá sigra í röð þar á undan. „Við verðum að byrja á að halda hreinu. Við héldum hreinu í þessum þremur leikjum og unnum þá. Þetta verður alltaf erfiðara ef þú færð á þig mark. Við verðum bara að halda áfram. Við erum búnir með tvo erfiða útivelli í röð núna; Krikann og Keflavík. Nú er það bara áfram gakk,“ sagði Haraldur.  

mbl.is