Við eigum bara að gera betur

Jóhann Ægir Arnarsson skallar boltann í Vestmannaeyjum í dag.
Jóhann Ægir Arnarsson skallar boltann í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

FH sótti ÍBV heim í fyrstu umferð neðri helmings Bestu deildar karla í fótbolta í dag. Leikurinn endaði með 2:1 sigri heimamanna í ÍBV.

Stigin sem liðin gátu tekið úr þessum leik voru gríðarlega mikilvæg í fallbaráttunni. Jóhann Ægir Arnarsson, miðvörður FH-inga, var því niðurlútur með niðurstöðuna eftir leikinn.

„Við ætluðum að koma og vinna þennan leik. Sáum gott tækifæri til að koma okkur upp töfluna og klúðruðum því,“ sagði Jóhann Ægir.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram síðustu helgi en var auðvitað frestað til dagsins í dag vegna þátttöku FH í úrslitaleik Mjólkurbikars karla. Þar töpuðu FH-ingar fyrir Víkingi eftir framlengdan leik.

FH-ingar byrjuðu leikinn í dag verulega hægt og komust raunar ekki inn í leikinn af neinu viti fyrr en eftir tuttugu mínútna leik. Jóhann Ægir vildi þó ekki meina að vonbrigðin og álagið um helgina hafi ollið því.

„Þetta var bara léleg byrjun. Við eigum bara að gera betur,“ sagði Jóhann Ægir pirraður.

FH-ingar sóttu hinsvegar látlaust síðustu mínúturnar og hefðu vel getað laumað inn jöfnunarmarki. Allt kom þó fyrir ekki.

„Við sköpuðum alveg færi til að vinna þennan leik, en frammistaðan heilt yfir var ekki góð svo við unnum ekki,“ sagði Jóhann Ægir.

Eftir tapið sitja FH-ingar enn í fallsæti. Þeir eiga hinsvegar leik við Leikni næstu helgi og geta með sigri þar haft sætaskipti við Breiðhyltinga og komið sér upp af fallsvæðinu.

„Við ætlum bara að vinna næsta leik. Það er alltaf markmiðið hjá okkur að vinna næsta leik og við höldum því bara áfram,“ sagði Jóhann Ægir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert