Ísland mætir Nýja-Sjálandi í apríl

Sveindís Jane Jónsdóttir landsliðskona.
Sveindís Jane Jónsdóttir landsliðskona. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Nýja-Sjálandi í vináttuleik 7. apríl í Antalya í Tyrklandi, samkvæmt tilkynningu frá KSÍ.

Leikið verður á Mardan Sports Complex í Antalya og hefst leikurinn klukkan 13 að íslenskum tíma.

Um er að ræða fyrri leikinn af tveimur vináttuleikjum liðsins í apríl, en Ísland mætir Sviss fjórum dögum síðar á Stadion Letzigrund í Zürich. Sá leikur hefst klukkan 17 að íslenskum tíma.

Hópur liðsins fyrir leikina tvo verður kynntur næstkomandi föstudag.

Ísland og Nýja-Sjáland hafa mæst tvisvar. Liðin skildu jöfn, 1:1, í Algarve-bikarnum í Portúgal árið 2016 og í febrúar á síðasta ári vann Ísland sigur, 1:0, þegar liðin mættust í Carson í Kaliforníu í SheBelieves-bikarnum. Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmarkið.

Nýja-Sjáland er önnur gestgjafaþjóða heimsmeistaramótsins í Eyjaálfu í sumar, ásamt Ástralíu. Nýsjálenska liðið er í 24. sæti á heimslista FIFA en Ísland er í 16. sæti.

mbl.is