Besta staða Íslands frá upphafi

Íslenska landsliðið sem mætti Wales í febrúar.
Íslenska landsliðið sem mætti Wales í febrúar. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er í fjórtánda sæti á heimslista FIFA sem gefinn var út í morgun og hefur aldrei áður komist jafn hátt á listanum.

Liðið fer upp um tvö sæti en það var í sextánda sæti á síðasta lista sem var birtur í desember 2022.

Áður hefur Íslands best komist í fimmtánda sæti listans á árunum 2011 til 2013.

Íslenska liðið vann alþjóðlega Pinatar-mótið á Spáni í febrúar þar sem það fékk sjö stig af níu mögulegum gegn Skotlandi, Wales og Filippseyjum og var með markatöluna 7:0.

Ísland fer upp fyrir Suður-Kóreu og Norður-Kóreu á listanum en er áfram í áttunda sæti af Evrópuþjóðum.

Efstu níu sæti listans eru óbreytt en þar sitja Bandaríkin, Þýskaland, Svíþjóð, England, Frakkland, Kanada, Spánn, Holland og Brasilía.

Ástralía, Japan, Noregur og Kína eru þær fjórar þjóðir til viðbótar sem eru fyrir ofan Ísland en í næstu sætum á eftir koma Danmörk, Ítalía og Suður-Kórea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert