Vissum að við þyrftum að sækja þrjú stig

Arnar Grétarsson á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Grétarsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Hákon Pálsson

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var eðlilega mjög sáttur eftir sigur á Víkingi, 3:2, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld. Víkingur var fyrir leikinn með fullt hús stiga.

„Við erum búnir að vera í smá ströggli að því leiti að við höfum ekki verið að fá stig og dettum út úr bikarnum. Það voru gæði í þessum leik, hann var opinn og skemmtilegur þrátt fyrir ekkert frábært veður. Mér fannst bæði lið spila flottan fótboltaleik og ég svo sem átti alveg von á því frá Víkingi, þeir eru búnir að spila alveg gríðarlega vel og eru með bullandi sjálfstraust.

Mér fannst við tækla leikinn mjög vel. Þetta var alvöru leikur sem féll með okkur, við skoruðum þrjú fín mörk og áttum margar flottar sóknir. Við vörðumst líka virkilega vel sem er ánægjuefni.“

Öll þrjú mörk Vals voru svipuð að því leiti að boltinn var settur fyrir aftan vörn Víkings og upp í horn í aðdragandanum.

„Við höfum verið mikið í þessu. Við viljum komast aftur fyrir og við viljum fá sendingar út í teiginn. Við vitum að Víkingarnir eru fljótir að koma sér niður og þeir eru fljótir að fylla svæðið fyrir framan markmaninn. Þá er svæðið þar fyrir utan opið. Við erum með gæðin til að gera þessa hluti þó það hafi aðeins vantað í síðustu leikjum. Það var gaman að fá það í þessum leik.

Við vorum svolítið með bakið upp við vegg. Við vissum það fyrir leik að við þyrftum að koma hingað og sækja þrjú stig, eða að lágmarki ná jafntefli. Sem betur fer náðum við því og erum aftur komnir inn í mótið sem er virkilega ánægjulegt. Ég er mjög ánægður með frammistöðu leikmannanna og þeir áttu þetta bara skilið.“

Eins og Arnar kemur inná var sigurinn afar mikilvægur fyrir Val en Víkingur hefði getað komist 11 stigum á undan liðinu. Í staðinn er munurinn fimm stig eftir kvöldið.

„Við vitum það að við erum búnir að vera í bölvuðu basli með leikmenn og meiðsli. Það eru menn að koma til baka úr meiðslum núna og varnarlínan í kvöld með Hlyn fyrir framan spilaði eiginlega allt undirbúningstímabilið. Við höfum ekki getað stillt því í upp í sumar, ekki það að aðrir hafa leyst það vel. Að komast í gegnum þessa törn sem er núna og vera í hælunum á þessum liðum uppi er mjög mikilvægt því þau fara í Evrópu og þá kemur meira álag.“

Hlynur Freyr Karlsson, sem Arnar minnist á hér að ofan, spilaði aftastur á miðju Valsmanna í leiknum í kvöld og átti frábæran leik. Hann hafði það hlutverk að elta Nikolaj Hansen út um allan völl og gerði það svo gott sem óaðfinnanlega.

„Við töluðum um að þeir fara alltaf í 3-2-5 leikkerfi í uppbyggingunni. Þá eru þeir að yfirmanna miðjuna og andstæðingurinn lendir í basli. Við vildum láta miðvörðinn stíga upp í miðjumanninn og hafa Hlyn í kringum Nikolaj. Það gekk mjög vel því hann er ekki að stinga sér aftur fyrir vörnina, heldur er hann uppspilspunktur og tekur til sín. Hann er erfiður og það þarf virkilega að vera á tánum því hann getur skorað á jörðinni og með hausnum. Mér fannst Hlynur gera þetta vel og allt liðið varðist vel. 

Varnarleikurinn byrjar fremst á vellinum og færist svo niður. Ef að fremstu menn eru ekki að verjast þá lendir aftasta línan í basli. Mér fannst við stíga upp sem lið í dag og eiga virkilega flottan leik. Þetta var alvöru leikur hjá báðum liðum og sem betur fer komumst við yfir. Svo náum við inn öðru marki áður en þeir gera þetta að leik. Ég held að við eigum að geta gert betur í mörkunum sem þeir skora en ég þarf að sjá það betur bara.“

Guðmundur Andri Tryggvason var í byrjunarliði Vals en varð að fara af velli vegna meiðsla snemma leiks. Þá virtist Aron Jóhannsson eitthvað finna til þegar hann var tekinn af velli seint í leiknum.

„Ég held að Guðmundur Andri verði frá í einhvern tíma. Aron fékk högg og ég hef ekki trú á því að það verði eitthvað vesen á honum.“

mbl.is