Allt í einu að huga að flugmiða heim

„Maður lifði í voninni en það er erfitt að treysta á aðra. Við stilltum okkur sjálfar upp við vegg og þá endaði þetta svona,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, á æfingu í dag eftir að Ísland féll úr leik á EM í Hollandi.

Eftir tapið gegn Sviss í gær fylgdust Guðbjörg og aðrar í landsliðinu með gangi mála hjá Frakklandi og Austurríki, þar sem sigur Frakklands hefði gefið Íslandi von um að komast í 8-liða úrslit. Frakkland og Austurríki skildu hins vegar jöfn og þar með er Ísland úr leik. Hvernig er þá hægt að horfa til leiksins við Austurríki á miðvikudag, sem nú virðist þýðingarlaus?

„Maður er kannski ekki alveg kominn þangað í hausnum en að sjálfsögðu verðum við að klára þann leik vel, sýna smá stolt og þakka öllum stuðningsmönnunum sem hafa fylgt okkur hingað með því að gefa þeim góðan leik. En við þurfum nokkra klukkutíma í viðbót til að komast yfir þetta mikla áfall,“ sagði Guðbjörg.

„Við erum búin að undirbúa okkur í svo langan tíma, knattspyrnusambandið búið að gefa okkur geggjaða umgjörð og Freysi [Freyr Alexandersson þjálfari] búinn að vinna dag og nótt með sínu teymi til að undirbúa okkur fyrir eitthvað stærra og meira. Það kom ekkert annað til greina hjá okkur sjálfum en að fara áfram en allt í einu er maður farinn að hugsa um einhverja flugmiða heim. Maður er bara í fríi næstu helgi, sem er eitthvað sem mér datt ekki í hug að við myndum lenda í,“ sagði Guðbjörg. Hún kvaðst ekki vilja hafa gert neitt öðruvísi í aðdraganda mótsins:

„Þetta er besti undirbúningur sem við höfum átt fyrir lokamót. Við vorum undirbúnar fyrir allt og getum bara nagað okkur sjálfar í handarbakið fyrir að hafa ekki spilað betur gegn Sviss.“

Nánar er rætt við Guðbjörgu í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina