Norðmenn sjá hilla undir Ríó

Andre Lindboe fagnar marki í leik Noregs og Íslands á …
Andre Lindboe fagnar marki í leik Noregs og Íslands á EM. Ljósmynd/Foto Olimpik

Norðmenn hafa ekki átt karlalið í handknattleik á Ólympíuleikunum í 44 ár, ekki síðan í München árið 1972, en nú sjá þeir möguleika sína vænkast verulega eftir sigurinn í B-riðli EM í Póllandi.

Norska liðið tók fjögur stig með sér í milliriðilinn, vann Hvíta-Rússland og Króatíu en tapið gegn Íslandi skipti engu máli fyrst íslenska liðið féll úr keppni.

Sex af þeim liðum sem komust áfram úr riðlakeppninni eru að slást um tvö síðustu sætin í forkeppni Ólympíuleikanna. Norðmenn eru með 4 stig í milliriðli, Rússar 2 stig, en Hvít-Rússar, Svíar, Ungverjar og Makedóníumenn eru án stiga.

Það þarf mikið að fara úrskeiðis hjá norska liðinu í milliriðlinum til að það verði ekki annað tveggja liðanna sem tryggja sér sæti í forkeppninni með frammistöðu sinni á EM.

Í forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í apríl spila tólf þjóðir um síðustu sex sætin í handknattleikskeppni leikanna sem fram fara í Ríó de Janeiro í Brasilíu í ágústmánuði.

Línumaðurinn reyndi Bjarte Myrhol segir í viðtali við VG að það hafi lengi verið draumur sinn að komast á Ólympíuleikana. „Það hefur verið minn stærsti draumur á ferlinum og ég veit að ég á ekki mörg ár eftir af ferlinum. Ég get ekki lýst því hve mikils virði það væri mér að komast á ÓL,“ sagði Myrhol, sem sjálfur er frá keppni í bili eftir meiðsli í tapleiknum gegn Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert