Björgvin Páll tók Svíana á taugum

Stuðningsmenn íslenska liðsins öflugir í stúkunni í Split.
Stuðningsmenn íslenska liðsins öflugir í stúkunni í Split.

Markvörðurinn reyndi, Björgvin Páll Gústavsson, sló vopnin úr höndum Svía í fyrri hálfleik í fyrsta leik liðanna í A-riðli EM í handknattleik í Spaladium-höllinni í Split í gær.

Björgvin varði hvað eftir annað frá Svíum í opnum færum og til að mynda víti frá markamaskínunni Niclas Ekberg á upphafsmínútunum. Ísland vann gífurlega mikilvægan sigur, 26:24, og á nú fína möguleika á því að komast upp úr erfiðum riðli og í milliriðil.

Fyrir framan Björgvin léku samherjar hans öflugan varnarleik með Bjarka Má Gunnarsson og Ólaf Guðmundsson fyrir miðju. Rúnar Kárason og Aron Pálmarsson voru sinn hvorum megin við þá. Þessi 6-0 vörn virkaði mjög vel enda var staðan 15:8 fyrir Ísland að loknum fyrri hálfleik. Fyrstu sóknirnar gengu einnig vel og þar var tónninn gefinn. Ólafur Guðmundsson skoraði fyrsta mark Íslands á EM að þessu sinni þegar hann slapp aleinn á milli hornamanns og bakvarðar. Kerfi sem íslenska liðið æfði undir lok síðustu æfingar fyrir leik.

Sjá umsögn Kristjáns Jónssonar um leikinn við Svía í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.