Danir skrefi á undan að þeirra mati

Nikolaj Jacobsen segir sínum mönnum til í leikhléi í gær …
Nikolaj Jacobsen segir sínum mönnum til í leikhléi í gær í sigri þeirra á Ungverjum. AFP

Danir eru alveg ótrúlega ánægðir með eftirmann Guðmundar Guðmundssonar í starfi landsliðsþjálfara danska karlalandsliðsins í handknattleik. Raunar er Bent Nyegaard, sérfræðingur TV2 , svo ánægður að hann segir Dani vera skrefi framar en aðrir einungis vegna krafta Nikolaj Jacobsen sem stýrir Dönum frá hliðarlínunni í fyrsta skipti á stórmóti.

Í pistli sínum frá því í gær rekur hann hversu mikilvægir þjálfarar eru í handboltaíþróttinni. Íþróttirnar séu í raun afar fáar þar sem þjálfarinn getur haft meiri áhrif á lið sitt.

„Hugsið sem svo: Hansen, Lauge, Mensah, Olsen, Damgaard, Kirkeløkke. Samsetningarmöguleikarnir eru bara fyrir stærðfræðinga. Hverjir leika best saman þegar á reynir? Hver er ekki á sínum degi en hefur reynsluna? Hverjir eru bestir á hvaða tímapunkti í leiknum? Eða þegar hitt liðið er með boltann og hverjir geta náð skiptingunum áður en það er um seinan?“ skrifar Nyegaard.

Hann kallar þjálfara í pistli sínum hliðarlínulistamenn og að handboltaíþróttin sé þess eðlis að þeir geta breytt liði sínu og liðsuppstillingu út í hið óendanlega.

„Þess vegna trúi ég að Danmörk sé skrefi á undan andstæðingum sínum á þessu Evrópumeistaramóti í Króatíu.“

Guðmundur Guðmundsson stýrði danska karlaliðinu til sigurs í fyrsta skipti í sögunni á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. Það var einkum taktískur undirbúningur hans sem gerði það að verkum að Danir unnu Frakka í úrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka