Ísland fékk loks góðar fréttir

Aron Pálmarsson brýst í gegn í leik gegn Serbum á ...
Aron Pálmarsson brýst í gegn í leik gegn Serbum á EM. Ljósmynd/Uros Hocevar, EHF

Þrátt fyrir að íslenska karlalandsliðið í handknattleik hafi fallið úr leik á Evrópumótinu í Króatíu í gær barst liðinu góður byr í seglin í dag.

Ísland er nefnilega öruggt með sæti í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn í umspil vegna heimsmeistaramótsins sem fram fer á næsta ári, árið 2019. Sigur Tékka gegn Ungverjum gerði það ljóst.

Þrjú af þeim fjórum liðum sem hafna í botnsæti riðlakeppni EM verða í neðri styrkleikaflokki, en Ísland er sú þjóð sem sleppur í þann efri. Ísland endaði með tvö stig eftir sigur á Svíþjóð og í C-riðli hafnaði Svartfjallaland í neðsta sæti án stiga.

Eftir að Tékkar unnu Ungverjaland 33:27 í D-riðli var svo ljóst að Ungverjar enduðu án stiga í riðlinum og það þýðir að Ísland verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið er í undankeppni HM 2019.

mbl.is