Veiran tækluð eins og hver annar leikur

Björgvin Páll Gústavsson var einn þeirra leikmanna sem greindist með …
Björgvin Páll Gústavsson var einn þeirra leikmanna sem greindist með kórónuveiruna. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, greindist með kórónuveiruna í dag.

Björgvin er nú staddur í Búdapest ásamt íslenska karlalandsliðinu þar sem liðið undirbýr sig fyrir mikilvægan fyrsta leik gegn Danmörku í milliriðli 1 á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Ísland vann alla leiki sína í riðlakeppninni, gegn Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi, en ásamt Björgvini greindust þeir Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson einnig með veiruna.

Þetta covid drasl verður tæklað eins og hver annar leikur!“ sagði Björgvin í færslu sem hann birti á Facebook í kvöld.

„Treysti hinum gaurunum í liðinu 100% fyrir framhaldinu án okkar þriggja sem vorum að greinast. Ætla að nota tímann næstu daga í að láta mig dreyma um að við náum langt á þessu móti og mun berjast fyrir því að komast eins hratt til baka og ég get,“ sagði Björvin meðal annars.

Reglum samkvæmt þarf Björgvin að vera í einangrun í fimm daga og skila tveimur neikvæðum PCR-prófum áður en hann getur snúið aftur á keppnisvöllinn.mbl.is