Benítez biðlar til Arsenal

Benítez vill að Arsenal geri sér greiða með því að ...
Benítez vill að Arsenal geri sér greiða með því að vinna Manchester United á morgun. Reueters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur biðlað til Arsenal liðsins um að sýna hvað þeir geti í leiknum gegn Manchester United á morgun, en með jafntefli eða sigri, mun Manchester hampa Englandsmeistaratitlinum þriðja árið í röð, nokkuð sem hugnast Benítez illa, en Liverpool er sex stigum á eftir Man. United þegar tvær umferðir eru eftir.

„Við höfum fulla trú á því að Arsenal muni spila vel. Þeir hafa tapað síðustu tveimur leikjum, en í þetta skipti munum við sjá allt annað lið á vellinum, lið sem þarf að sanna sig. Ef þeir vinna, gefur það okkur vonandi styrk til að sigra á sunnudaginn,“ sagði Benítez, en Liverpool mætir WBA á sunnudag.

„Hvað sem gerist, þá er ég ánægður með að hafa verið í þessari stöðu í lok tímabilsins. En ég hef sannarlega ekki gefist upp á titlinum, við verðum ávallt að vera jákvæðir. Arsenal mun berjast til síðasta blóðdropa,“ sagði Benítez.

Leikurinn hefst klukkan 11.45 að íslenskum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina