Wenger: Sjálfstraustið hvarf á Old Trafford

Arsene Wenger hefur yfir litlu að gleðjast þessa dagana.
Arsene Wenger hefur yfir litlu að gleðjast þessa dagana. Reuters

„Þetta er hrikalegt. Auðvitað erum við æfir yfir þessu,“ sagði Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal eftir 4:3 tapið gegn Blackburn í dag.

Arsenal hefur fengið á sig 14 mörk í fyrstu fjórum leikjunum, flest mörk allra liða í deildinni.

„Leikmenn eru allir af vilja gerðir en þegar við skoðum hvað við fáum mörg mörk á okkur þá sést að þetta er ekki nægilega gott hjá okkur. Það þýðir ekkert að koma hingað og fá á sig fjögur mörk. Ég er hins vegar viss um að liðið muni ná sér á strik en það er mikilvægt að við förum að ná hagstæðum úrslitum strax,“ sagði Wenger sem vill meina að 8:2 tapið gegn Manchester United sitji í mönnum.

„Við fengum svo mörg færi og skoruðum þar að auki tvö sjálfsmörk og það er bara erfitt að skilja þetta en við verðum að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti. Við erum veikir fyrir varnarlega eftir að sjálfstraust manna hvarf í kjölfar þess sem gerðist á Old Trafford.“

mbl.is