Ba samdi við Chelsea til 2016

Demba Ba fagnar marki.
Demba Ba fagnar marki. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea staðfesti fyrir stundu að það hefði gengið frá kaupum á Demba Ba frá Newcastle og samið við hann til hálfs fjórða árs, eða til vorsins 2016.

Kaupverð var ekki gefið upp en nokkuð ljóst er að það er 7 milljónir punda, enda er það upphæðin sem tilgreind var í samningi Ba við Newcastle.

„Það er góð tilfinning að vera kominn hingað, ég er mjög ánægður og stoltur. Það var mikilvægt fyrir mig og Newcastle að koma þessu strax á hreint og nú geta báðir aðilar haldið sínu striki. Þeir hafa heilan mánuð til að kaupa einhvern í staðinn og ég fæ meiri tíma til að aðlagast hjá Chelsea," sagði Ba á vef Lundúnafélagsins.

„Þegar félagið sem vann Meistaradeildina vill fá þig, er valið auðvelt. Þetta er magnað félag og gerði mér ákvörðunina auðveldari," sagði Ba ennfremur.

Demba Ba er 27 ára gamall Senegali sem hefur skorað 4 mörk í 16 landsleikjum. Hann hóf ekki að spila með Senegal fyrr en hann var 22 ára en Ba er fæddur og uppalinn í Frakklandi og spilaði þar fyrst í meistaraflokki hjá Rouen 2005-2006. Þá sló hann í gegn og skoraði 22 mörk í 26 leikjum fyrir liðið.

Ba fór þaðan til Moeskroen í Belgíu og þaðan keypti Hoffenheim í Þýskalandi hann árið 2007. Ba lék þar í fjögur ár og skoraði 37 mörk í 97 leikjum.

West Ham keypti Ba í janúar 2011 og hann lék með liðinu til vorsins þar sem hann gerði 7 mörk í 12 leikjum. Liðið féll úr úrvalsdeildinni og þá hvarf Ba á braut og samdi við Newcastle. Þar hefur hann verið atkvæðamikill, skorað 29 mörk í 54 leikjum í úrvalsdeildinni og er á þessu tímabili í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar með 13 mörk.

mbl.is