Rooney hetjan gegn Liverpool

Lucas Leiva og Marouane Fellaini eigast við í leiknum.
Lucas Leiva og Marouane Fellaini eigast við í leiknum. AFP

Manchester United lagði Liverpool að velli 1:0 á Anfield í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en sigurmarkið kom undir lok leiksins.

Það var ljóst í leiknum að Louis van Gaal, stjóri United, ætlaði sér ekki að sækja til sigurs, alla vega fyrst um sinn. Hans lið ákvað að liggja til baka mestan hluta leiksins og leyfði þar með Liverpool að búa sér til færi.

Heimamenn fengu fjölmörg færi en þó lítið af dauðafærum. Flest skotin komu úr þröngri stöðu og var þá David De Gea, markvörður United, vel vakandi. Hann varði í tvígang frá Emre Can og ákvað því Wayne Rooney að þakka honum kærlega fyrir það á 78. mínútu.

United fékk þá hornspyrnu sem var tekin stutt á Juan Manuel Mata. Hann kom með fyrirgjöf á kollinn á Marouane Fellaini sem stangaði knöttinn í slá, en boltinn datt síðan þaðan fyrir lappirnar á Wayne Rooney sem setti boltann upp í þaknetið.

Lítið markvert gerðist eftir markið og lokatölur því 1:0 United í vil. Liðið er því með 37 stig í 5. sæti en Liverpool er áfram í 9. sæti deildarinnar með 31 stig. Mikilvægir punktar hjá Van Gaal en ljóst er að Klopp er í algeru veseni með Liverpool þessa stundina.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. Þetta er búið! Wayne Rooney skorar sigurmarkið gegn Liverpool. Þvílíkt mikilvægur sigur hjá Van Gaal. Þetta ætti að tryggja sæti hans alla vega næstu vikurnar. Liverpool sótti meira í leiknum en skapaði sér ekkert af viti.

81. Benteke inn fyrir Toure. Það á að sækja. Liverpool ætlar að ná í það minnsta stigi úr þessum leik. Van Gaal er líklega hetja í augum stuðningsmanna United akkurat núna!

78. MAAAAAAAAAARK!!!!!! WAYNE ROONEY Liverpool 0:1 Man Utd. Gestirnir fengu hornspyrnu sem þeir lögðu stutt út á Mata. Hann kom með fyrirgjöfina á kollinn á Fellaini en skalli hans hafnaði í þverslánni. Boltinn datt fyrir lappirnar á Wayne Rooney sem setti boltann í þaknetið!

72. Memphis Depay kemur inn fyrir Herrera. Það er verð að henda byssunum inn til þess að klára leikinn.

67. DE GEA!! Þvílík varsla hjá honum. Emre Can með hörkuskot fyrir utan sem De Gea varði með annarri.

66. Lingard að koma af velli og inn kemur Mata. Skil ekki hvernig í ósköpunum Lingard var yfir höfuð í byrjunarliðinu fram yfir Mata. Van Gaal er flókinn maður.

60. UNITED VILL FÁ VÍTI!! Martial fellur fyrst í teignum og augljóst að þar var engin snerting en svo fer Lucas með fótinn í Herrera að mér sýndist. United vildi fá víti en ekkert dæmt. Erfitt að segja til um hvort þetta hafi verið réttur dómur eða ekki, þarf að sjá þetta aftur.

56. UNITED!!! Martial að ógna hinum megin á vellinum. Fær boltann í teignum, keyrir vinstra megin inn og þrumar svo framhjá. Þessi leikur í hnotskurn bara, öll skot framhjá.

50. EMRE CAAAN!! Can keyrði inn vinstra megin í teiginn og lét vaða á markið en De Gea ver þetta á einhvern ótrúlegan hátt í horn. Frábær markvarsla hjá Spánverjanum!

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur: Liverpool 0:0 Manchester United

Tíðindalítið svona þannig séð í hálfleik. Liverpool vill þetta miklu meira og Louis van Gaal virðist vera að reyna að svæfa leikinn. Hann virðist vera að spila upp á stig en vonandi fáum við meira fjör í síðari hálfleikinn. Það þarf mark til að opna þetta.

42. Það er skipting. Ashley Young kemur af velli og inn kemur Borthwick-Jackson. Ungur og efnilegur, smá stressaður líka sýnist mér.

30. ÞVÍLÍKT SPIL HJÁ LIVERPOOL! Magnað spil hjá Liverpool sem endar með skot frá Henderson en það fer framhjá. Henderson, Lallana og Firmino, vá þetta spil. Einnar snertingar fótbolti í hæsta gæðaflokki, þó margir eigi erfitt með að trúa því.

28. Heimamenn eru búnir að vera betri fyrsta hálftímann. Það vantar samt mikið upp á, mætti vera skemmtilegra.

17. Jordan Henderson reynir að bregða sér í hlutverk Steven Gerrard, fyrrum fyrirliða Liverpool, með skoti langt fyrir utan teig, en það fer framhjá.

15. Fellaini er orðinn eitthvað vel peppaður fyrir UFC í kvöld. Hann hendir Milner í jörðina og togar í Lucas. Brasilíski miðjumaðurinn var ekkert sérstaklega ánægður með það og tók í Fellaini, alvöru barátta í gangi.

12. MILNER!! Firmino með magnaða sendingu á Milner sem var hægra megin í teignum en skotið hans fór rétt framhjá. Öflug byrjun hjá heimamönnum.

10. ÞARNA MUNAÐI LITLU!! Lucas Leiva átti frábæra sendingu inn fyrir á Adam Lallana sem reyndi að skalla boltann framhjá David De Gea fyrir utan teig. De Gea varði boltann út á Firmino sem reyndi skot en boltinn sleikti stöngina. Gestirnir stálheppnir að vera ekki undir!

4. Gestirnir fá aukaspyrnu á hættulegum stað en hún fer forgörðum. Þetta byrjar fremur rólega á Anfield.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Leikmenn eru í göngunum og gera sig reiðubúna til þess að ganga inn á völlinn. Það er spenna í loftinu, óhætt að segja það.

0. Liverpool-borg er troðfull af Íslendingum í dag. Ég held svei mér þá að megnið af stuðningsmönnum Liverpool sé á svæðinu. Nokkrir hittu meira að segja Daniel Sturridge, framherja liðsins, er þeir voru að snæða á veitingastað í borginni.

0. Hægt er að sjá byrjunarliðin hér fyrir neðan. Öflug lið hjá báðum liðum. Það helsta í þessu er að Christian Benteke og Joe Allen eru á bekknum hjá Liverpool. Juan Manuel Mata og Memphis Depay á tréverkinu hjá Manchester United

0. Byrjunarliðin verða birt hér innan skamms.

Adam Lallana og Daley Blind í leiknum.
Adam Lallana og Daley Blind í leiknum. AFP
David De Gea er búinn að vera magnaður í dag.
David De Gea er búinn að vera magnaður í dag. AFP
mbl.is