Balotelli snýr aftur til Liverpool

Mario Balotelli náði sér ekki á strik hjá AC Milan …
Mario Balotelli náði sér ekki á strik hjá AC Milan í vetur. AFP

Ítalski landsliðsframherjinn Mario Balotelli er á leið aftur í herbúðir Liverpool eftir að AC Milan tilkynnti að félagið myndi ekki halda þessum 25 ára gamla leikmanni.

Balotelli hefur leikið sem lánsmaður hjá Milan í vetur en náði aðeins að skora eitt mark í 20 leikjum fyrir liðið, sem mistókst að ná sæti í Meistaradeild Evrópu.

„Það eru nokkrir leikmenn á förum, til að mynda Alex, Philippe Mexes, Kevin-Prince Boateng og Balotelli, sem eru allir með samninga sem eru að renna út,“ sagði Silvio Berlusconi, forseti AC Milan.

Balotelli hafði látið hafa eftir sér að hann óskaði þess að vera áfram hjá Milan þar sem hann hefði ekki verið ánægður hjá Liverpool og vildi ekki snúa þangað aftur.

Liverpool keypti Balotelli fyrir 16 milljónir punda í ágúst 2014 en hann skoraði aðeins fjögur mörk í 28 leikjum á sínu eina keppnistímabili fyrir liðið, þar af eitt í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool vill selja Ítalann og hafa félög í Kína og Tyrklandi sýnt áhuga, samkvæmt frétt The Guardian.

mbl.is