Betur kominn hér en hjá stóru liði

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, telur að Gylfi Þór Sigurðsson sé betur kominn að vera sem lykilmaður í liði Swansea í stað þess að fara og eiga á hættu að endurtaka reynslu sína hjá Tottenham þar sem hann var í tvö ár og náði aldrei að festa sig í sessi.

Gylfi lét hafa eftir sér í viðtali í gær að hann væri ekki að reyna að komast í burtu frá Swansea né vildi það en það væri undir Swansea komið hvort það vildi selja hann. Clement vonast til þess að halda Gylfa í röðum Swansea en Gylfi hefur verið orðaður við mörg lið á Englandi, þar á meðal Everton, West Ham og Southampton.

„Hann var hér á láni en fór svo til Tottenham sem átti að verða næsta skrefið upp á við á ferli hans. Það gekk ekki og hann kom aftur hingað og hefur staðið sig frábærlega. Hann mun hafa þetta í huga. Ef hann á að taka næsta skref þá verður það að vera á jákvæðu nótunum. Hann getur ekki farið aftur í þá stöðu sem hann hafði hjá Tottenham þar sem hann var inni og út úr liðinu.

Annars er betra fyrir hann að vera hér, vera lykilmaður og taka þátt í gera liðið betra. Ég vona að hann verði hjá okkur en ég vona líka að í framtíðinni fái hann tækifæri að spila með mjög stóru félagi,“ sagði Clement við fjölmiðla.

mbl.is