Draumabyrjun hjá Rooney

Wayne Rooney fagnar sigurmarki Everton gegn Stoke City á Goodison ...
Wayne Rooney fagnar sigurmarki Everton gegn Stoke City á Goodison Park í dag. AFP

Wayne Rooney stimplaði sig svo sannarlega inn þegar hann sneri til baka til uppeldisfélags síns, Everton, sem lagði Stoke City að velli með einu marki gegn engu í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Rooney sem lék sinn fyrsta leik fyrir Everton síðan hann yfirgaf herbúðir félagsins fyrir 13 árum og gekk til liðs við Manchester United skoraði með góðum skalla skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og þar við sat.

Rooney hefur nú komið að 300 mörkum fyrir lið sín í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla. Rooney hefur skorað 199 og lagði upp 101 fyrir samherja sína. Það er aðeins markamaskínan Alan Shearer sem státar af betri árangi, það er 324 mörk.  

Góð byrjun hjá Huddersfield Town

Það var enginn skrekkur í leikmönnum Huddersfield Town sem leikur í efstu deild í fyrsta skipti síðan árið 1972. Huddersfield Town vann öruggan 3:0-sigur gegn Crystal Palace sem lék sinn fyrsta deildaleik undir stjórn hollenska knattspyrnustjórans Ronald de Boer.

Joel Ward, varnarmaður Crystal Palace, kom Huddersfield Town á bragðið þegar hann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Steve Mounie bætti svo tveimur mörkum við fyrir Huddersfield Town.

Egypski landsliðsmaðurinn Ahmed Hegazy tryggði West Bromwich Albion 1:0-sigur í leik liðsins gegn Bournemouth. Þá gerðu Southampton og Swansea City sem lék án Gylfa Þórs Sigurðssonar markalaust jafntefli.

mbl.is