Jói og félagar töpuðu - Chicharíto með tvö

Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í dag. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley máttu þola 1:0-tap á heimavelli sínum gegn West Brom í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Jóhann spilaði fyrstu 79. mínúturnar fyrir Burnley. Hal Robson-Kanu kom inn á sem varamaður á 63. mínútu og skoraði hann sigurmarkið átta mínútum síðar, en fékk svo að líta rauða spjaldið á 83. mínútu. 

Southampton vann 3:2-heimasigur á West Ham í stórskemmtilegum leik. Manolo Gabbiadini kom Southampton yfir á 11. mínútu og Marko Arnautovic, leikmaður West Ham fékk að líta rauða spjaldið á 33. mínútu. Manni fleiri komst Southampton í 2:0 á 38. mínútu og bjuggust þá flestir við auðveldum sigri Southamton. 

Leikmenn West Ham gáfust þó ekki upp og Chicharíto minnkaði muninn í 2:1 rétt fyrir hálfleik og jafnaði hann leikinn á 74. mínútu. Charlie Austin skoraði hins vegar sigurmark Southampton úr vítaspyrnu í uppbótartíma og þar við sat. 

Shinji Okazaki og Harry Maguire tryggðu Leicester 2:0-heimasigur á nýliðum Brighton og Watford vann Bournemouth á útivelli, 2:0. Richarlison og Étienne Capoue skoruðu mörk Watford. 

Tvö mörk frá Javier Hernández dugðu ekki til.
Tvö mörk frá Javier Hernández dugðu ekki til. AFP
mbl.is