Afþakkaði lúxusvillu frá viðskiptajöfri

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Sóknarmaðurinn Mohamed Salah frá Egyptalandi hafnaði á dögunum heldur óvenjulegri gjöf sem viðskiptajöfur þar í landi vildi færa honum eftir að Egyptaland hafði tryggt sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Rússlandi á næsta ári.

Salah skoraði mark úr vítaspyrnu í uppbótartíma gegn Kongó sem tryggði þjóðinni farmiða til Rússlands.

Í frétt Liverpool Echo kemur fram að egypski viðskiptajöfurinn Mamdouh Abbas hafi viljað gefa Salah lúxusvillu sína að gjöf eftir leikinn en Egyptaland keppti síðast á HM árið 1990.

Salah, sem varð dýrasti leikmaður í sögu Liverpool er hann var keyptur í sumar á tæpar 37 milljónir punda, á að hafa beðið Abbas um að gefa upphæð að jafnvirði hússins til góðgerðamála í heimahéraði hans á Egyptalandi.

Salah, sem hefur spilað frábærlega með Liverpool á leiktíðinni, skorað átta mörk og lagt upp tvö í 13 leikjum, var vinsæll fyrir, en er orðinn þjóðhetja í Egyptalandi í dag.

mbl.is