Gylfi án stjóra í mánuð og Everton í vandræðum

Allt hefur gengið á afturfótunum hjá Everton á leiktíðinni.
Allt hefur gengið á afturfótunum hjá Everton á leiktíðinni. AFP

Í dag, 23. nóvember, er sléttur mánuður síðan Ronald Koeman var rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni, en félagið virðist engu nær um arftaka hans.

Everton hefur reynt að falast eftir kröftum Marco Silva, stjóra Watford, en hefur ekki fengið leyfi til þess að ræða við hann. Talið er að Everton væri tilbúið að greiða 10 milljónir punda í skaðabætur til Watford, en félagið vill ekki sleppa honum.

Louis van Gaal, fyrrum stjóri Manchester United, var orðaður við starfið en sagði sjálfur að það Everton væri ekki nógu stórt félag fyrir sig. Sam Allardyce hætti einnig við að vilja starfið því honum fannst forráðamenn Everton of seinir í aðgerðum. Þá hefur Sean Dyche, stjóri Burnley, verið orðaður við starfið en Everton hefur ekki óskað eftir viðræðum við hann.

David Unsworth, sem stýrði unglingaliðinu og var ráðinn tímabundið, mun því halda áfram með liðið og næsti leikur er gegn Atalanta í Evrópudeildinni í kvöld.

mbl.is