Liverpool á eftir að glíma við stóru prófin

Leikmenn Liverpool fagna einu af sjö mörkum sínum í gærkvöld.
Leikmenn Liverpool fagna einu af sjö mörkum sínum í gærkvöld. AFP

Lið Liverpool er á gríðarlegri siglingu þessa dagana en eftir 5:1 útisigur gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um síðustu helgi bauð Liverpool upp á aðra flugeldasýningu á Anfield í gærkvöld þegar liðið rótburstaði Spartak Moskva, 7:0, í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Liverpool er svo sannarlega í frábæru formi þessa stundina. Það skemmtir áhorfendum með mörkum og liðið var sannfærandi í þessum leik. Sóknarmenn liðsins njóta sín og Liverpool á enn eftir að takast á við stóru prófin og miklu meiri áskoranir í Meistaradeildinni.

Það hefur unnið þessi svokölluðu minni lið en það hefur ekki unnið neitt ennþá,“ sagði Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og nú sparkspekingur á ITV-sjónvarpsstöðinni.

„Það var gaman að horfa á Liverpool-liðið en það hefði ekki fengið þennan tíma og pláss á móti betri liðum og öll þessi færi. Svo einfalt er það.“mbl.is