Arsenal komið í fjórða sætið

Özil fagnar marki í dag.
Özil fagnar marki í dag. AFP

Arsenal sigraði Newcastle 1:0 og komst upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en liðið er með 33 stig. Newcastle er hins vegar í 18. sæti með 15 stig.

Mesut Özil skoraði eina mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik. Hann tók þá boltann á lofti eftir hálf misheppnaða hreinsun gestanna og hamraði boltanum í markið.

Eftir tvo 1:0-sigra í röð gerðu Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley nú markalaust jafntefli gegn Brighton. Heimamenn í Brighton fengu gullið tækifæri til að skora í fyrri hálfleik en Glenn Murray skaut yfir úr vítaspyrnu. Burnley er í 5. sæti með 32 stig en Brighton er í 13. sæti með 18 stig.

Englandsmeistarar Chelsea sigruðu Southampton 1:0. Marcos Alonso skoraði eina mark leiksins á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins. Meistararnir eru í 3. sæti með 38 stig en Southampton er með 18 stig í 12. sæti.

Nýliðar Huddersfield gerðu góða ferð til Watford þar sem þeir sigruðu heimamenn 4:1. Aaron Mooy skoraði tvö marka gestanna og þeir Elias Kachunga og Laurent Depoitre sitt markið hvor. Abdoulaye Doucouré skoraði mark heimamanna.

Troy Deeney var rekinn af leikvelli í liði heimamanna í fyrri hálfleik og Jonathan Hogg fauk út af í liði Huddersfield í seinni hálfleik. Watford er með 22 stig í 9. sæti en Huddersfield er með 21 stig í 11. sæti.

West Ham United komst upp úr fallsæti með 3:0-sigri sínum gegn Stoke City. West Ham United hefur nú borið sigur úr býtum í tveimur leikjum og gert eitt jafntefli í síðustu þremur leikjum liðsins.

Það voru Mark Noble, Marko Arnautovc og Diafra Sakho sem skoruðu mörk West Ham í leiknum.

West Ham United hefur 17 stig í 15. sæti deildarinnar eftir þennan sigur, en Stoke City er tveimur sætum neðar með 16 stig. Stoke City er í sætinu fyrir ofan fallsæti og er einu stigi frá fallsæti eins og sakir standa. 

Úrslit leikjanna sem hófust klukkan 15.00:

Arsenal - Newcastle 1:0
Özil 24.

Brighton - Burnley 0:0

Chelsea - Southampton 1:0
Marcos Alonso 45.

Watford - Huddersfield 1:4
Deeney rautt spjald 33. Doucoure 68. - Kachunga 6., Mooy 23., Depoitre 50. Hogg rautt spjald 61. Mooy víti 89.

Stoke - West Ham 0:3 - Leikurinn hófst klukkan 16.00.
Noble víti 19., Marko Arnautovic 75., Diafra Sakho 86.

Arsenal 1:0 Newcastle opna loka
90. mín. Leik lokið 1:0-sigur Arsenal í höfn.
mbl.is