Íslendingar ættu að gera allt öfugt við Newcastle

Sergio Agüero er vel fagnað af liðsfélögum sínum um helgina.
Sergio Agüero er vel fagnað af liðsfélögum sínum um helgina. AFP

Ætli íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sér að stöðva Sergio Agüero í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi í sumar er líklega ekki málið að kíkja í uppskriftabækurnar hjá Newcastle. Argentínski framherjinn virðist njóta sín alveg sérstaklega vel í leikjum gegn Newcastle og hann skoraði öll þrjú mörk Manchester City í 3:1-sigri í leik liðanna á laugardaginn, í 24. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Agüero hefur nú skorað heil 14 mörk í 12 leikjum á móti Newcastle, sem er jafnvel enn merkilegra í ljósi þess að hann hefur að meðaltali aðeins spilað 60 mínútur í þessum 12 leikjum. Þetta hljómar í raun eins og að íslenska landsliðið ætti þann 16. júní að hugsa „hvað myndi Newcastle gera?“ og gera svo nákvæmlega öfugt við það.

City ákvað að hætta við að reyna að landa Alexis Sánchez frá Arsenal, treysta þess í stað á þá markaskorara sem fyrir eru, og það er kannski ekki skrýtið með leikmenn eins og Agüero innanborðs.

Nánar er farið yfir leiki helgarinnar á Englandi í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert