Stuðningsmönnum Arsenal sagt að fara varlega

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Vegna vaxandi ólgu á milli Breta og Rússa þar sem Bretar saka Rússa um að hafa staðið á bak við taugaeiturárás á rússneskan gagnnjósnara hefur enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal hvatt stuðningsmenn sína sem ætla að ferðast til Rússlands að sjá útileik liðsins gegn CSKA Moskvu í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar að fara mjög varlega.

Utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, hefur sagt að „yfirgnæfandi líkur“ séu á því að Vladimir Putin, forseti Rússlands, hafi gefið grænt ljós fyrir árásinni á Sergei Skripal og dóttur hans Juliu.

Fyrri leikur Arsenal og CSKA fer fram 5. apríl en síðari leikurinn 12. apríl í Moskvu.

Á vefsíðu Arsenal eru þeir stuðningsmenn liðsins sem ætli sér að fara til Rússlands hvattir til að fara eftir fyrirmælum breska utanríkisráðuneytisins.

Segir á vef félagsins að vegna stöðunnar í milliríkjasamskiptum þjóðanna skuli stuðningsmennirnir búast við því að möguleiki sé á fjandsamlegu viðmóti í garð Breta í Rússlandi og jafnvel að þeir verði áreittir án þess að skilgreina með hvaða hætti.

Jafnframt eru stuðningsmennirnir hvattir til þess að sýna aðgætni, forðast öll mótmæli og það að tjá sig opinberlega um þróun mála á hinum pólitíska vettvangi.

Forráðamenn CSKA hafa einnig tjáð sig um málið og segja stuðningsmenn Arsenal engar áhyggjur þurfa að hafa.

„Við erum ánægðir að mæta Arsenal. Enskir stuðningsmenn sem vilja koma til Moskvu þurfa ekkert að óttast. Við erum þegar búnir að mæta Manchester United á þessu tímabili í Moskvu og allt fór vel,“ sagði talsmaður félagsins við Sky.

Frétt Sky um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert