Tilbúinn að setja stór nöfn á bekkinn

Paul Pogba er einn þeirra leikmanna sem Mourinho gæti sett ...
Paul Pogba er einn þeirra leikmanna sem Mourinho gæti sett á bekkinn í leiknum gegn Tottenham. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að þeir leikmenn sem léku illa í leiknum á móti WBA í ensku úrvalsdeildinni í gær verði ekki í byrjunarliðinu á móti Tottenham í undanúrslitaleiknum í bikarkeppninni sem fram fer á Wembley á laugardaginn.

Enskir fjölmiðlar gera því skóna að Paul Pogba, Alexis Sánchez, Juan Mata og Ander Herrera eigi það allir á hættu að verða settir á bekkinn í leiknum gegn Tottenham en enginn þeirra náði sér á strik í tapleiknum á móti botnliðinu í gær. Þeir voru reyndar fleiri leikmenn United-liðsins sem áttu dapran dag en ósigurinn gerði það að verkum að Manchester City innsiglaði meistaratitilinn.

Þeir leikmenn sem byrjuðu á bekknum í leiknum í gær þykja líklegir til að fá sæti í byrjunarliðinu í deildarleiknum gegn Bournemouth á miðvikudaginn og freista þess að fá tækifæri í leiknum á móti Tottenham.

mbl.is