Ætlar að koma Arsenal aftur í fremstu röð

Unai Emery ásamt Arsene Wenger, forvera sínum í starif hjá …
Unai Emery ásamt Arsene Wenger, forvera sínum í starif hjá Arsenal. AFP

Unai Emery, sem í dag var ráðinn eftirmaður Arsene Wenger sem knattspyrnustjóri Arsenal, segist ætla að koma félaginu aftur í fremstu röð í Evrópu. Hann sat fyrir svörum á sínum fyrsta fréttamannafundi með Arsenal nú síðdegis.

„Við munum berjast um alla titla á næsta tímabili. Það er hluti af sögu Arsenal og sögu minni sem knattspyrnustjóra. Það er mjög mikilvægt fyrir félagið eftir tvö ár án þess að vera í Meistaradeildinni að vinna að því að verða aftur besta liðið í ensku úrvalsdeildinni og á meðal þeirra bestu í heimi,“ sagði Emery.

Ivan Gazidis, framkvæmdastjóri Arsenal, sagði á fundinum að Emery hefði verið einn af átta stjórum sem komu til greina. Fóru þeir allir í gegnum mikið ferli áður en ákvörðun var tekin um að ráða Emery.

„Enginn neitaði að taka þátt í því ferli. Þetta var mest heillandi starfið sem í boði var í knattspyrnuheiminum og við erum mjög heppnir að hafa fengið þann sem var okkar fyrsti kostur,“ sagði Gazidis og bætti því við að viðræður við Emery hafi staðið síðan 25. apríl.

Emery, sem er 46 ára gam­all, kem­ur til Arsenal frá franska liðinu Par­is SG sem hann hef­ur þjálfað und­an­far­in tvö ár. Þar áður var hann við stjórn­völ­inn hjá spænska liðinu Sevilla í þrjú ár og vann meðal annars Evrópudeildina öll árin. Hann hóf þjálf­ara­fer­il sinn hjá spænska liðinu Lorca Deporti­va árið 2005 og hann þjálfaði síðan spænsku liðin Al­mer­ia og Valencia, og rúss­neska liðið Spar­tak Moskva áður en hann tók við þjálf­un Sevilla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert