Liverpool hjólar í Shaqiri eftir HM

Xherdan Shaqiri er sterklega orðaður við Liverpool þessa dagana.
Xherdan Shaqiri er sterklega orðaður við Liverpool þessa dagana. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool ætlar sér að reyna fá Xherdan Shaqiri, sóknarmann Stoke City eftir að heimsmeistaramótinu í Rússlandi lýkur en það er Mirror sem greinir frá þessu. Liverpool hætti óvænt við kaupin á Nabil Fekir, sóknarmanni Lyon á dögunum og er Shaqiri nú sagður efstur á óskalista Jürgen Klopp, stjóra liðsins.

Shaqiri er falur fyrir 12 milljónir punda en Stoke féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor. Hann verður í eldlínunni með Sviss á heimsmeistaramótinu en hann er lykilmaður í landsliðinu. Klopp greindi frá því fyrr í vetur að markmiðið væri að klára öll kaup liðsins áður en heimsmeistaramótið hæfist en nú er ljóst að það verður ekkert úr því.

Liverpool tryggði sér þjónustu Fabinho frá AS Monaco í síðasta mánuði og þá mun Naby Keita ganga til liðs við félagið þann 1. júlí næstkomandi frá RB Leipzig. Þeir eru báðir miðjumenn en Klopp vill bæta við sig sóknarmanni líka og mögulega framherja áður en glugginn lokar í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert