Klopp ekki hættur á markaðnum

Það er nóg að gera hjá Jürgen Klopp á skrifstofunni ...
Það er nóg að gera hjá Jürgen Klopp á skrifstofunni þessa dagana. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er langt frá því að vera hættur á leikmannamarkaðnum en það eru enskir miðlar sem greina frá þessu í dag. Liverpool keypti sóknarmanninn Xherdan Shaqiri í gærdag frá Stoke og borgaði 13,5 milljónir punda fyrir Svisslendinginn. 

Shaqiri er þriðji leikmaðurinn sem Liverpool fær í glugganum en fyrir höfðu þeir Naby Keita og Fabinho samið við félagið. Emre Can er eina stóra nafnið sem yfirgaf félagið þegar samningur hans rann út í júní en þrátt fyrir að þrír góðir knattspyrnumenn hafi samið á dögunum vill Klopp styrkja hópinn enn frekar.

Miðlarnir á Englandi halda því fram að enska knattspyrnufélagið sé enn þá að leita sér að nýjum markmanni, þrátt fyrir að Klopp hafi lýst yfir trausti á Loris Karius á dögunum vill liðið fá sóknartengilið á Anfield til þess að fylla skarðið sem Philippe Coutinho skildi eftir sig þegar hann fór til Barcelona í janúar.

Nabil Fekir hefur verið sterklega orðaður við félagið en hann var afar nálægt því að ganga til liðs við Liverpool áður en HM í Rússlandi hófst. Franskir miðlar greina frá því að Lyon og Liverpool séu enn þá í viðræðum um leikmanninn. Þá hefur Alisson, markmaður Roma og brasilíska landsliðsins, verið orðaður við Liverpool en hann er talinn vera á leiðinni til Real Madrid.

mbl.is