Missa Gylfi og félagar stig?

Marco Silva yfirgaf Watford til að taka við Everton.
Marco Silva yfirgaf Watford til að taka við Everton. AFP

Í versta falli, fyrir Everton, gæti farið svo að félagið missti stig í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu vegna aðferða sinna við ráðningu Marco Silva sem knattspyrnustjóra.

Silva var stjóri Watford þar til á síðustu leiktíð en tók við Everton í sumar. Enska úrvalsdeildin hefur nú hafið rannsókn á því hvort Everton hafi með ólöglegum hætti haft samband við Silva þegar hann var enn stjóri Watford. Frá þessu er greint í The Guardian.

Everton vildi fá Silva til að taka við af Ronald Koeman síðasta haust og bauð Watford 12 milljónir punda til að fá stjórann, en því boði var hafnað og Sam Allardyce varð næsti stjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga.

Forráðamenn Watford vilja að Everton verði refsað og telja að umleitanir félagsins hafi truflað Silva og leitt liðið í fallbaráttu á síðustu leiktíð. Silva var rekinn í janúar eftir hrinu slæmra úrslita, og þá fullyrtu Watford-menn að ólöglegar tilraunir Everton til að fá Silva hefðu stuðlað að því.

Sérstök rannsóknarnefnd á vegum ensku úrvalsdeildarinnar gæti átt eftir að krefja forráðamenn Everton um símtalayfirlit til þess að varpa betra ljósi á samskipti Silva og Everton á sínum tíma.

Enska úrvalsdeildin hefur reynt að miðla málum með því að samið verði um bætur til Watford, en ekkert samkomulag hefur náðst. Forráðamenn félaganna funduðu í apríl en það skilaði ekki árangri. Samkvæmt frétt Guardian er líklegast að verði Everton refsað  felist sú refsing í bótum til Watford en þó er ekki útilokað að stig verði tekin af Everton.

Gylfi Þór Sigurðsson í leik gegn Southampton.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik gegn Southampton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert