Þeir eru haldnir lygasýki

José Mourinho stýrði United til sigurs á Burnley í síðasta …
José Mourinho stýrði United til sigurs á Burnley í síðasta leik fyrir landsleikjahléið. AFP

Luke Shaw er klár í slaginn með Manchester United gegn Watford á morgun en þetta kom fram á blaðamannafundi José Mourinho, knattspyrnustjóra United, í dag. Mourinho skaut föstum skotum á fundinum.

Mourinho sagði vafa leika á um að Marouane Fellaini gæti spilað en Fellaini missti af landsleik Belgíu og Íslands á þriðjudag vegna meiðsla. Ander Herrera er meiddur. Diogo Dalot og Marcos Rojo leika með U23-liði United í kvöld og sagði Mourinho að ef þeir spiluðu 90 mínútur væri endurhæfingu þeirra lokið og þeir klárir í slaginn í næstu viku.

Shaw fékk slæmt höfuðhögg í landsleik með Englandi um síðustu helgi. „Öfugt við skoðanir sumra þá er honum frjálst að spila að mati lækna,“ sagði Mourinho.

Mourinho var spurður út í framtíð Marcus Rashford hjá United en þessi tvítugi framherji Englands skoraði í leikjum gegn Spáni og Sviss í landsleikjahléinu. Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og sparkspekingur, lét hafa eftir sér að hann teldi Rashford þurfa að skipta um félag til að verða heimsklassaframherji. Því hefur verið haldið fram að Rashford fái ekki að spila nóg fyrir United-liðið en tölfræðin sýnir annað. Rashford verður í leikbanni á morgun eftir rauða spjaldið sem hann fékk í síðasta leik.

Þeir sem tala um mínúturnar eru á villigötum

Mourinho var greinilega búinn undir spurningar um Rashford því samkvæmt BBC dró hann fram tölfræðilista og tók 276 sekúndur í að svara.

„Fólkið sem er að tala um mínútur er á villigötum. Marcus Rashford er ekki Dominic Solanke, Ruben Loftus-Cheek eða Dominic Calvert-Lewin. Hann er Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, með ótrúlegan fjölda leikja og mínútna sem hann hefur spilað á hæsta stigi og í bestu keppnunum. Svo að fyrir stuðningsmenn Manchester United, bara fyrir ykkur, þá vitið þið að við erum að gera það sama fyrir Marcus Rashford, Luke Shaw, Jesse Lingard og Scott McTominay,“ sagði Mourinho, og skaut enn frekar á sparkspekinga og fótboltalýsendur:

„Varðandi Marcus þá býst ég við því að á sunnudaginn verði ég harðlega gagnrýndur fyrir að tefla honum ekki fram á morgun því sumir eru bara með mig á heilanum. Sumir þeirra held ég að glími við lygasýki,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert