Gylfi skoraði með fyrirliðabandið en tapaði

Gylfi Þór Sigurðsson var fyrirliði og skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu í dag þegar Everton varð fyrsta liðið sem West Ham nær að vinna í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. West Ham fór með öll þrjú stigin heim frá Goodison Park í 3:1-sigri.

Úkraínski landsliðsmaðurinn Andriy Yarmolenko var í fyrsta sinn í byrjunarliði West Ham í dag og reyndist Everton heldur betur erfiður ljár í þúfu. Hann kom West Ham yfir á 11. mínútu eftir frábæran undirbúning Marko Arnautovic og skoraði svo aftur á 31. mínútu eftir að Jordan Pickford í marki Everton náði ekki að hreinsa almennilega frá. Staðan 2:0 fyrir West Ham.

Gylfi Þór, sem bar fyrirliðaband Everton eins og áður sagði, náði hins vegar að minnka muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Hárnákvæm sending Jonjoe Kenny inn í teig, Gylfi stökk hæst allra og stangaði boltann í netið. Aðeins hans þriðja skallamark af 47 mörkum í úrvalsdeildinni og staðan 2:1 í hálfleik.

Bæði lið fengu sín færi eftir hlé en West Ham steig stórt skref að sínum fyrsta sigri þegar Arnautovic kom liðinu í 3:1 á 61. mínútu eftir laglegt spil. Everton reyndi að komast inn í leikinn á ný og meðal annars átti varamaðurinn Oumar Niasse þrumuskot í þverslá, en lengra komust Gylfi og félagar ekki. Fyrsti sigur West Ham í höfn, 3:1.

West Ham er nú komið upp í 16. sæti deildarinnar eftir fimm leiki og hefur þar þrjú stig en Everton er í 10. sæti með sex stig.

Everton 1:3 West Ham opna loka
90. mín. Bernard (Everton) fær gult spjald
mbl.is