Liverpool til sölu?

Jürgen Klopp hefur stýrt Liverpool frá árinu 2015.
Jürgen Klopp hefur stýrt Liverpool frá árinu 2015. AFP

Bandaríski fjölmiðillinn New York Post greinir frá því í dag að enska knattspyrnufélagið Liverpool sé til sölu fyrir rétta upphæð. Liverpool er í eigu Fenway Sports Group sem er eignarfélag í eigu John W. Henry, bandarísks viðskiptajöfurs.

Henry er einnig eigandi hafnaboltaliðsins Boston Red Sox en hann keypti Liverpool árið 2010 fyrir 447 milljónir Bandaríkjadala. Enska félagið er metið á rúma tvo milljarða í dag en félagið hefur verið eftirsótt af erlendum viðskiptajöfrum undanfarin ár.

Sjeikinn frá Abú Dabí, Anu Khaled Bin Zayed Al Nahayan, á að hafa gert tilboð í félagið á síðasta ári en því var hafnað. Al Nahayan er frændi sjeik Mansour, eiganda Manchester City. Bandarískir fjármálasérfræðingar telja að Liverpool geti aukið verðmæti sitt enn frekar á næstu árum og því eigi eigendur liðsins að bíða með að selja félagið.

Eins og áður sagði er félagið metið á rúma tvo milljarða í dag en talið er, að eftir fjögur til fimm ár, verði félagið metið á þrjá milljarða. 

mbl.is