Salah með þrennu og Liverpool óstöðvandi

Virgil van Dijk fagnar með Mohamed Salah eftir að sá …
Virgil van Dijk fagnar með Mohamed Salah eftir að sá síðarnefndi fullkomnaði þrennu sína í dag. AFP

Liverpool heldur áfram sinni bestu byrjun í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu frá upphafi en Bournemouth var engin fyrirstaða á útivelli í dag. Lokatölur urðu 4:0 fyrir Liverpool, sem ekki hefur tapað leik í fyrstu 16 umferðunum.

Mohamed Salah stal senunni svo sannarlega í dag en hann skoraði þrennu. Fyrsta mark hans og Liverpool kom á 25. mínútu, þegar hann fylgdi á eftir skoti Roberto Firmino sem var varið. Salah virtist hafa verið rangstæður þegar skotið reið af, en markið stóð og staðan 1:0 í hálfleik.

Salah skoraði annað mark sitt strax í upphafi síðari hálfleiks. Bournemouth missti þá boltann klaufalega á miðjunni og Firmino kom honum á Salah. Hann óð af stað, reynt var að sparka hann niður en hann komst alla leið inn á vítateig og skilaði boltanum í netið.

Á 68. mínútu kom þriðja mark Liverpool. Andrew Robertson átti þá fasta fyrirgjöf frá vinstri sem Steve Cook reyndi að hreinsa frá, en varð fyrir því óláni að senda boltann í eigið mark. Tæpum tíu mínútum síðar fullkomnaði Salah svo þrennu sína þegar hann slapp einn í gegn, lék tvívegis á Asmir Begocic í markinu og skoraði svo framhjá varnarmönnum Bournemouth sem höfðu raðað sér á línuna.

Niðurstaðan 4:0 sigur Liverpool, sem skaust með því á toppinn með 42 stig. Liðið er stigi á undan Manchester City, sem einnig er taplaust og mætir Chelsea síðar í dag og gæti endurheimt toppsætið.

Bournemouth 0:4 Liverpool opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert