Man. City minnkaði forskot Liverpool

Fernandinho og Bernardo Silva fagna með markaskorararnum Gabriel Jesus gegn …
Fernandinho og Bernardo Silva fagna með markaskorararnum Gabriel Jesus gegn Wolves í kvöld. AFP

Manchester City minnkaði í kvöld forskot Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu niður í fjögur stig með sigri á Wolves á heimavelli, 3:0.

Gabriel Jesus kom City yfir strax á 10. mínútu eftir frábæra stoðsendingu Leroy Sané inn í vítateig. Staðan 1:0. Róðurinn var því snemma þungur fyrir Wolves og varð enn þyngri á 19. mínútu þegar Willy Boly fékk að líta rauða spjaldið.

Boly henti sér þá í átt að Bernardo Silva sem var með boltann á ferðinni, hafði takkana á undan sér og fór beint í ökklann á Silva. Beint rautt spjald. City undirstrikaði yfirburði sína eftir þetta enn frekar og Jesus skoraði sitt annað mark á 39. mínútu úr vítaspyrnu eftir að Raheem Sterling var felldur. Staðan 2:0 í hálfleik.

Wolves var aldrei nálægt því að ógna forskoti City eftir hlé og á 78. mínútu kom þriðja markið. Varamaðurinn Kevin De Bruyne átti þá sendingu fyrir markið þar sem Conor Coady í liði Wolves varð fyrir því óláni að fá boltann í sig þaðan sem hann fór í eigið net. Staðan orðin 3:0, sem jafnframt urðu lokatölur.

City er nú með 53 stig í öðru sætinu en Liverpool er fjórum stigum ofar með 57 stig á toppnum. Tottenham kemur næst á eftir með 48 stig í þriðja sæti. Wolves er í 11. sæti með 29 stig.

Man. City 3:0 Wolves opna loka
90. mín. Kevin De Bruyne (Man. City) á skot sem er varið Reyndi hælspyrnu af markteig, en varið. City-menn eru bara að leika sér hérna í lokin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert