Liverpool verður að vinna rest

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Graeme Souness, fyrrverandi fyrirliði og knattspyrnustjóri Liverpool, telur að Liverpool þurfi að vinna alla 11 leikina sem það á eftir í ensku úrvalsdeildinni til að vinna Englandsmeistaratitilinn í ár.

Manchester City endurheimti toppsætið í gær með 6:0 sigri á móti Chelsea. City og Liverpool eru jöfn að stigum. Markatala Manchester City er hins vegar mun betri en Liverpool hefur spilað einum leik færra en Manchester-liðið.

„Með þessari ótrúlegu frammistöðu City held ég að Liverpool þurfi að vinna sína leiki sem það á eftir til að vinna titilinn. Eftir smá hikst sýndi Manchester City hvernig það ætlar að enda þetta tímabil,“ sagði Souness á Sky Sports í gær en Liverpool freistar þess að vinna Englandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í 29 ár á meðan Manchester City stefnir á að verja titilinn.

Næsti leikur Liverpool í deildinni er á móti Manchester United á Old Trafford 24. febrúar en City tekur á móti West Ham 27. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert