Man. City biður Chelsea afsökunar

Frá leiknum í gær.
Frá leiknum í gær. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City hafa beðið Chelsea afsökunar eftir 6:0-sigur Manchester-liðsins á Chelsea á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í gær. 

Ástæða afsökunarbeiðninnar er ekki stórsigurinn, heldur tónlistin sem var spiluð á Etihad-vellinum eftir leikinn. Lagið One Step Beyond með Madness var spilað strax eftir leik, en það er jafnan spilað á Stamford Bridge eftir sigurleiki Chelsea. 

Lagið stóð yfir í stutta stund áður en skipt var yfir í Blue Moon, einkennislag Manchester City. Að sögn Sky Sports samþykkti Chelsea afsökunarbeiðnina, en stuðningsmenn félagsins voru margir ekki sáttir við athæfið. 

mbl.is