Launakröfur stöðvuðu Liverpool og Man. Utd.

Aaron Ramsey verður leikmaður Juventus næsta sumar.
Aaron Ramsey verður leikmaður Juventus næsta sumar. AFP

Walesverjinn Aaron Ramsey er á leið til ítölsku meistaranna í Juventus frá Arsenal næsta sumar og er sagður verða um leið hæst launaði breski knattspyrnumaður sögunnar.

Samkvæmt enskum miðlum mun samningur Ramseys við Juventus færa honum 400.000 pund á viku í laun, jafnvirði rúmlega 62 milljóna króna. Ramsey verður samningslaus hjá Arsenal næsta sumar og því þarf nýtt félag kappans ekki að greiða Arsenal neitt kaupverð. Talið er að greint verði formlega frá vistaskiptum Ramsey til Juventus á næsta sólarhring.

Á vefmiðli London Evening Standard er það fullyrt að launakröfur leikmannsins hafi gert að verkum að félög á borð við Manchester United og Liverpool hafi ekki fylgt eftir langvarandi áhuga sínum á leikmanninum. Þar segir að Jürgen Klopp sé aðdáandi Ramseys en Liverpool sé í góðum málum hvað leikmenn í hans leikstöðu varði. United mun hafa spurst fyrir um Ramsey síðasta sumar þegar José Mourinho var stjóri félagsins.

mbl.is