Newcastle hafði betur í fallslagnum

Joshua King fagnar marki sínu af vítapunktinum í dag. Hann …
Joshua King fagnar marki sínu af vítapunktinum í dag. Hann átti eftir að brenna af vítaspyrnu síðar í leiknum. AFP

Newcastle lyfti sér frá botnbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með því að leggja Huddersfield að velli, 2:0, að heiman í dag. Þá gerðu Bournemouth og Wolves 1:1 jafntefli í skrautlegum leik en bæði lið sigla lygnan sjó um miðja deild.

Botnlið Huddersfield virðist enga von eiga en Tommy Smith var rekinn af velli eftir 20 mínútur fyrir heimamenn áður en Miguel Almiron og Ayoze Pérez skoruðu snemma í síðari hálfleik fyrir gestina. Newcastle er því nú með 28 stig í 14. sæti, fjórum stigum frá fallsæti. Huddersfield er aftur á móti langneðst, með 11 stig, 14 stigum frá öruggu sæti.

Bournemouth og Wolves skildu jöfn á Vitality vellinum í leik þar sem Roger East dómari dæmdi þrjár vafasamar vítaspyrnur. Joshua King kom heimamönnum yfir á 14. mínútu úr vítaspyrnu sem hann sótti sjálfur er hann féll auðveldlega eftir viðskipti við Joao Moutinho.

Gestirnir vildu sína eigin vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Chris Mepham, varnarmanns Bournemouth, en East dæmdi ekkert. Hann hins vegar benti á punktinn undir lok leiks þegar Adam Smith felldi Raul Jiménez inn í teig en aftur þótti dómurinn heldur strangur. Jiménez steig sjálfur á punktinn og jafnaði metin á 83. mínútu en skömmu síðar fengu heimamenn aðra vítaspyrnu, nú þegar Ryan Fraser var felldur utan teigs. Réttlætinu var þó kannski fullnægt er King steig aftur á punktinn en brást nú bogalistin og skaut framhjá.

Bournemouth er því í 10. sæti með 34 stig en Wolves í 8. sæti með 40 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert