Klopp var ekki skemmt

Jürgen Klopp á fréttamannafundinum í gær.
Jürgen Klopp á fréttamannafundinum í gær. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var ekki ánægður með spurningu sem hann fékk á fréttamannafundi í München í gær en Liverpool mætir Bayern München í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Fyrri leiknum á Anfield lyktaði með markalausu jafntefli en úrslitin ráðast á Allianz-vellinum í München í kvöld.

Gary Neville, einn af sparkspekingum á Sky Sports, sagði á dögunum að það yrði betra fyrir Liverpool að falla úr leik í Meistaradeildinni því það myndi auka möguleika liðsins á að vinna Englandsmeistaratitilinn, sem það hefur ekki unnið í 29 ár.

Klopp var spurður út í þessi ummæli Neville í gær og Klopp var ekki skemmt.

„Ég held að enginn þjálfari í heiminum svari þessari spurningu þegar hann er að spila í Meistaradeildinni. Sparkspekingurinn kemur frá Manchester United og hann byrjaði á þessu. Við viljum komast áfram og við viljum einbeita okkur að þessum leik. Ef við spilum góðan leik þá gæti heimurinn breyst fyrir okkur en eftir leikinn þá einbeitum við okkur að Fulham.

Þessir sparkspekingar í sjónvarpinu tala stöðugt en það þýðir ekki að þeir hafi meiri skilning. Það er vandamálið. Það er svo auðvelt að sitja inni á skrifstofu eða í stúdíóinu og ræða um hluti eins og þessa. Við plönum ekki tímabilið og segjum að besta leiðin til að vinna deildina sé að falla úr leik í öllum bikarkeppnum snemma,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert