Ferguson hamlar framförum United

Alex Ferguson er á flestöllum leikjum Manchester United.
Alex Ferguson er á flestöllum leikjum Manchester United. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic sem lék um skeið með Manchester United segir að Alex Ferguson sé orðinn að hindrun í baráttu félagsins um að komast aftur á sigurbrautina sem hann markaði á sínum tíma.

Ferguson hætti störfum sem knattspyrnustjóri United vorið 2013 en undir hans stjórn varð liðið 13 sinnum enskur meistari, vann bikarkeppnina fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu tvisvar. Frá þeim tíma hefur þremur stjórum mistekist að vinna stóran titil með félaginu og sá fjórði, Ole Gunnar Solskjær, er núna í starfinu til bráðabirgða.

Zlatan er ekki sáttur við þá nálgun Solskjærs að gefa stöðugt til kynna að hann sé með „stjórann“ að baki sér, sem sagt Ferguson, en hann hefur bæði boðið þeim gamla að vera á æfingasvæðinu og koma í búningsklefann.

„Þetta er röng nálgun. Allt sem gerist hjá félaginu er borið saman við Ferguson-tímann og sagt er að ef Ferguson væri við stjórnvölinn hefði þetta ekki gerst, Ferguson myndi ekki gera þetta. Allt snýst um Ferguson,“ sagði Zlatan við The Mirror.

„Ef ég væri í sporum Solskjærs myndi ég lýsa því yfir að Ferguson væri ekki hérna lengur. Ég myndi koma og skapa mína eigin sögu með félaginu. Ég myndi ekki vilja heyra um fortíðina, heldur gera hlutina núna. Ég kæmi inn með nýtt hugarfar. Ferguson á sinn stað í sögu félagsins en félagið þarf að halda áfram. Það þarf að staðsetja sig upp á nýtt og það er ekki einfalt,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert