Samband Solskjær og Pogba versnar

Paul Pogba með boltann í leiknum í gær.
Paul Pogba með boltann í leiknum í gær. AFP

Samband Paul Pogba og Ole Gunnar Solsjær, knattspyrnustjóra hans hjá Manchester United, er að versna. Stærsta ástæða þess er að Pogba vill yfirgefa félagið. Franska dagblaðið Le Parisien greinir frá þessu. 

Pogba hefur mikinn áhuga á að ganga í raðir Real Madríd. Zinedine Zidane, stjóri Real, hefur lýst yfir hrifningu sinni á Pogba að undanförnu. Pogba spilaði allan leikinn fyrir United í 0:1-tapinu fyrir Barcelona í Meistaradeild Evrópu í gær. 

Franski miðjumaðurinn spilaði gríðarlega vel í kjölfar þess að Solskjær tók við af José Mourinho í desember og skoraði níu mörk í fyrstu tólf leikjunum undir stjórn Norðmannsins. Hann hefur hins vegar ekki skorað síðan í febrúar. 

United er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum frá Tottenham, sem er í fjórða sæti. United á enn eftir að spila við Manchester City og Chelsea og er ljóst að Pogba hefur lítinn áhuga á að missa af sæti í Meistaradeildinni. 

„Ég hef alltaf sagt að það sé draumur fyrir alla leikmenn að spila með Real Madrid. Það er eitt stærsta félag heim. Það dreymir líka alla um að spila fyrir Zidane," sagði Pogba við franska fjölmiðla á dögunum. 

mbl.is