Fyrsti sigur Liverpool á Chelsea í sjö ár

Mohamed Salah fagnar glæsimarki sínu gegn Chelsea á Anfield ásamt ...
Mohamed Salah fagnar glæsimarki sínu gegn Chelsea á Anfield ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Sadio Mané og Mohamed Salah reyndust hetjur Liverpool þegar liðið fékk Chelsea í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool á Chelsea á Anfield í sjö ár en bæði mörk liðsins komu á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik.

Liverpool byrjaði leikinn betur og Mohamed Salah fékk gott færi til þess að koma Liverpool yfir strax á fimmtu mínútu en Kepa varði vel frá honum í marki Chelsea. Leikmenn Liverpool voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik á meðan Chelsea-menn vörðust aftarlega á vellinum en hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri og staðan markalaus í hálfleik.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og það tók þá einungis fimm mínútur að komast yfir. Jordan Henderson átti þá frábæra sendingu fyrir markið á Sadio Mané sem skallaði boltann í netið af stuttu færi og staðan orðin 1:0. Mohamed Salah bætti við öðru marki Liverpool, þremur mínútum síðar, með ótrúlegu skoti af 30 metra færi sem söng í samskeytunum.

Á 59. mínútu slapp Eden Hazard einn í gegn en skot hans fór í utanverða stöngina. Hazard fékk annað frábært færi, mínútu síðar þegar Willian sendi fyrir markið á hann en Alisson varði vel frá honum. Leikurinn róaðist mikið eftir þetta og Liverpool tók aftur völd á vellinum. Chelsea-menn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en leikmenn Liverpool vörðust vel og fögnuðu sigri í leikslok.

Liverpool endurheimtir þar með toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar og er með 85 stig í efsta sæti deildarinnar, tveimur stigum meira en Manchester City, sem á leik til góða á Liverpool. Chelsea er áfram í fjórða sæti deildarinnar með 66 stig, tveimur stigum meira en Manchester United, sem á leik til góða á Chelsea.

Liverpool 2:0 Chelsea opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:0-sigri Liverpool.
mbl.is